Fan-Zone fyrir Ísland


Mynd: Uppkast af stuðningsmannasvæðinu í miðbæ Helsinki (uppkast)

KKÍ í samstarfi við finnska körfuknattleikssambandi standa fyrir veglegu stuðningsmannasvæði eða „FAN-ZONE“ fyrir alla stuðningsmenn sína. FIBA mun hafa að auki svæði sitt við hliðina okkar. Svæðið verður staðsett á Kansalaistori Square í miðbæ Helsinki.

Á stuðningsmannasvæðinu verður að finna veitingatjöld og veitingasölu, stóla og borð, risaskjá (sem sýnir alla kvöldleiki Finna), útikörfuboltavelli, sölubása og fleira skemmtilegt. Einnig verður risasvið þar sem meðal annars íslenskir listamenn munu troða upp (nánar tilkynnt síðar).

Ljóst er að mikil stemning mun myndast fyrir og eftir leiki á svæðinu en það er í hjarta miðbæjar Helsinki, í 3 mín. göngufjarlægð frá lestarstöðinni, beint á móti þinghúsinu. 

Um 300m eru á aðalestarstöðina og þaðan fara allar lestir á stoppistöðina við Höllina þar sem keppt er. Sú lestarferð tekur um 6 mín. og fara lestir á um 5 mín. fresti frá aðalstöðinni. Það er því ljóst að mjög þægilegt verður að komast á milli miðbæjarinns og Hallarinnar.