10 júl. 2017

U20 lið karla tapaði í kvöld fyrir Spánverjum eftir mjög spennandi lokamínútur, 67-73.  Strákarnir léku geysilega vel í fyrri hálfleik og Spánverjarnir sem eru núverand Evrópumeistarar voru í stökustu vandræðum með ákafa vörn þeirra.  Það var mjög lítið skorað í upphafi og staðan var 8-7 fyrir Íslandi þegar rúmar 6 mínútur voru búnar af leiknum.  Þá byrjaði sóknin hjá okkar strákum að virka og þeir juku muninn.  Staðan var 21-12 eftir fyrsta leikhluta.  Þeir héldu síðan áfram í öðrum leikhluta og unnu hann 22-15.  Staðan í hálfleik 43-27 fyrir okkar strákum.  Spánverjarnir töpuðu mikið af boltum og skotnýting þeirra ekki góð.

Í seinni hálfleik snerist þetta við.  Spánverjarnir gerðust mun árásargjarnari bæði í vörn og sókn og pressuðu stíft.   Þá fórum við að tapa boltanum og hittum síður.  Spánverjarnir unnu 3. leikhluta 10-25 og staðan 53-52.  Síðan í 4. leikhluta var leikurinn mjög jafn en þeir sigu framúr í lokin.  Töpuðum 30 boltum í leiknum en Spánverjar “einungis” 22 og þar lá munurinn.

Margt hægt að læra af þessum leik og allir lögðu í púkkið á meðan vel gekk og á sama hátt gerðu allir mistök þegar illa gekk.  Tilgangur þessa æfingamóts að gera strákana tilbúna áður en alvaran byrjar næstu helgi.

Tölfræði leiksins er hægt að sjá hér.