2 mar. 2018
Á morgun, laugardaginn 3. mars, mun KR leika sinn síðasta heimaleik í deildarkeppninni í ár þegar liðið tekur á móti ÍR kl. 16:30 í DHL-höllinni í Vesturbænum. 
 
Að leik loknum mun KR fá afhendann deildarmeistaratitilinn fyrir 1. deild kvenna á þessu tímabili en liðið er nú þegar búið að tryggja sér fyrsta sæti deildarinnar. Liðið hefur leiki 22 leiki af 24 á tímabilinu og er lang efst með fullt hús stiga, eða 44 stig.
 
4-liða úrslitakeppni
Framundan er barátta milli næstu þriggja liða og hvernig þau raða sér upp fyrir 4-liða úrslitakeppnina sem framundan er. Fjölnir og Þór Akureyri eru einu liðin sem geta keppt um 2. sæti deildarinnar. Fjölnir er með 30 stig og Þór Ak. með 28 stig, en Fjölnir hefur leikið tveimur leikjum færra en Þór Ak.
 
Grindavík, ÍR og Hamar raðast í næstu sæti og keppa um 4. sætið og lokasætið í úrslitakeppninni í ár. Grindavík hefur 18 stig og ÍR 16 eftir 21 leik á meðan Hamar hefur 10 stig og á eftir að leika fimm leiki.
 
Það lið sem hafnar í 2. sæti deildarinnar leikur gegn því liði sem lendir í 3. sætinu á meðan KR mun fá 4. sætið í undanúrslitunum. Í undanúrslitum þarf að vinna þrjá leiki til að fara áfram í lokaúrslitin. Það lið sem fyrr vinnur þrjá leiki þar fer upp um deild og leikur í Domino’s deild kvenna tímbilið 2018-2019.
 
#korfubolti