Verðlaunaafhending Lífshlaupsins 2023
22.02.2023Lífshlaupið 2023 var ræst í sextánda sinn þann 1. febrúar sl.
Fulltrúar frá vinnustöðum og skólum tóku á móti sínum verðlaunum í hádeginu í dag í veislusal Þróttar í Laugardal. Alls tóku 16.745 landsmanna þátt í 1.495 liðum sem hreyfðu sig í 15.623.748 mínútur í 202.264 daga.
Það er virkilega gaman er að sjá hversu margir vinnustaðir eru duglegir að taka þátt í verkefninu, ár eftir ár, með flottum árangri og oft eru sömu fyrirtækin sem raða sér í verðlaunasætin, þar má nefna Landsbankann, Arion Banka, Advania, Vínbúðina, Nova, Eflu verkfræðistofu, Embætti Landlæknis og Hrafnistu. En til gamans má geta að Advania og Embætti Landlæknis hafa verið samstarfsaðilar Lífshlaupsins frá byrjun.
Lífshlaupið er orðið að vinnustaða- og/eða skólamenningu á mörgum þeirra staða sem skara fram úr og vinnustaðir og skólar eru duglegir að skapa sínar eigin innanhúshefðir í kringum Lífshlaupið.
Töluvert færri skólar tóku þó þátt í ár og hefur þátttaka skólanna farið dvínandi síðustu ár. Það væri gaman að sjá breytingu þar á.
Skólarnir í Grafarvogi eru sérlega duglegir að taka þátt og lenda iðulega í verðlaunasæti. Að þessu sinni voru það Borgarholtsskóli, Engjaskóli, Rimaskóli, Húsaskóli, Hamraskóli og Borgarskóli sem tóku þátt og stóðu sig allir með mikilli prýði og flestir í verðlaunasæti.
Í fyrsta sinn í ár gátu einyrkjar verið með og það voru nokkrir dugnaðarforkar sem skráðu sig og sitt fyrirtæki.
Félög eldri borgara, kvenfélög og gönguklúbbar voru líka mjög sýnilegir og afar duglegir. Það er jákvætt að fólk vill vera með í Lífshlaupinu og öllum velkomið að taka þátt. Miðað við áhuga þá munum við bæta við keppnisflokki fyrir félagasamtök og klúbba á næsta ári.
Þátttakendur voru duglegir að merkja Lífshlaupið á myndir og myndbrot á instagram og enn skemmtilgra þegar ÍSÍ berast frásagnir með myndum.
Öll úrslit í Lífshlaupinu má finna hér og hér má finna fleiri myndir.
Þó að keppnin sé búin þá má enn nota Lífshlaupskerfið til að halda utan um sína hreyfingu
Takk fyrir frábæra keppni.
Á myndinni má sjá verðlaunahafa í flokki 150-399 starfsmenn, fulltrúa VÍS, Sjóvá og NOVA