Verðlaunaafhending 2024

01.03.2024

Lífshlaupið 2024 var ræst í sautjánda sinn þann 7. febrúar síðast liðinn og stóð í tvær vikur í skólakeppninni, en þrjár vikur í öðrum flokkum.
Í hádeginu í dag fór fram verðlaunaafhending í Íþróttamiðstöðinni í Laugardal þar sem fulltrúar frá vinnustöðum, hreystihópum 67+ og grunn- og framahaldsskólum tóku á móti sínum verðlaunum. Alls tóku 16.475 landsmanna þátt í ár, í 1.448 liðum sem hreyfðu sig í 16.595.425 mínútur í 210.388 daga.

Það er virkilega gaman er að sjá hversu margir vinnustaðir eru duglegir að taka þátt í verkefninu, ár eftir ár, með flottum árangri og oft eru það sömu fyrirtækin sem raða sér í verðlaunasætin.

Í ár var flokknum Hreystihópar 67+ bætt við Lífshlaupið og tóku 550 manns þátt í þeim keppnisflokki og alls 15 hópar í í fjórum flokkum. Með þessari viðbót geta allir á aldrinum 6 ára og upp úr tekið þátt í Lífshlaupinu á sínum forsendum.
Lífshlaupið er orðinn hluti af vinnustaða- og/eða skólamenningu víða og hafa skapast skemmtilegar hefðir og uppákomur innanhúss í kringum þátttöku í verkefninu. Í ár voru virkir vinnustaðir 502 og skráðir liðsmenn 13.390.

Þátttaka grunn- og framhaldsskóla hefur farið dvínandi á undanförnum árum og virðist skráningin vera helsta áskorunin. Í ár voru 19 grunnskólar skráðir til leiks og samtals 2.334 nemendur. Framhaldsskólarnir voru 6 og nemendur 202.

Þátttakendur voru duglegir að merkja Lífshlaupið (@lifshlaupid #lifshlaupid) á myndir og myndbrot á Instagram og enn skemmtilegra þegar ÍSÍ berast frásagnir með myndum. Nokkrar frábærar frásagnir er að finna á Facebook síðu Lífshlaupsins og vonandi eiga nokkrar enn eftir að bætast við.

ÍSÍ þakkar styrktaraðilum kærlega fyrir einstaklega gott og skemmtilegt samstarf í ár. Styrktaraðilar eru Móðir Náttúra, Mjólkursamsalan, Lemon, Primal Iceland, Skautahöllin í Laugardal, Klifurhúsið og Unbroken. Hjartagosar á Rás 2 fá einnig kærar þakkir fyrir frábært samstarf.

Við minnum á að það má nota Lífshlaupskerfið til að halda utan um hreyfinguna allt árið. Þannig er hægt að fylgjast með tölfræðinni inni í kerfinu sem getur virkað sem hvatning fyrir marga.

Takk fyrir þátttökuna og kærar þakkir til liðsstjóra fyrir samvinnuna og þeirra framlag við að hvetja samstarfsmenn sína til dáða. Þetta var árangursríkt Lífshlaup og við hlökkum til að sjá alla aftur á næsta ári.

Öll úrslit í Lífshlaupinu má finna hér og hér má finna fleiri myndir.

Takk fyrir frábæra keppni og munið "minni kyrrsetu meiri hreyfingu"!